Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er fyrir fólk sem vill ná auknum árangri og auka skilvirkni.
Markþjálfun er aðferðafræði sem er til þess fallin að hjálpa einstaklingum að öðlast skýrari framtíðarsýn og hvernig hann getur nýtt styrkleika sína til að raungera þá sýn.
Markþjálfun er samræðuferli þar sem vitundarsköpun markþegans leiðir til nýrra lausna og tækifæra. Markþjálfun á rætur sínar að rekja í ýmsar fræðigreinar, m.a. leiðtogafræði, sálfræði, félagsfræði, taugavísindi og kennslufræði.
Markþjálfi er ekki ráðgefandi heldur leggur áherslu á að viðskiptavinurinn leiti sjálfur lausna á hverju máli sem tekið er fyrir. Markþjálfinn heldur hinsvegar utan um ferlið og nær með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum að beina viðskiptavininum sjálfum að kjarna málsins.
Markþjálfun er eins og púsluspil þar sem megintilgangurinn er að leggja nokkur púsl á hverjum fundi þar til heildarmyndin er skýr. Sú mynd er í flestum tilvikum ný, fersk og kraftmikil, þar sem búið er að breyta draumum og væntingum viðskiptavinar í skýr markmið með tilheyrandi mótun aðgerða.
Ástæðan fyrir að markþjálfun hefur fest sig í sessi á undanförnum árum er einfaldlega að hún skilar árangri. Þeir sem notið hafa góðrar markþjálfunar, hvort sem er í störfum sínum eða einkalífi segja hana framúrskarandi tæki til að ná markmiðum og breyta hegðun eða einfaldlega að hugsa lífið upp á nýtt.
Í upphafi skyldi endinn skoða
“If not now, when?”
Ef samtalið við markþjálfann gengur frábærlega, ef þú færir frá honum og segðir; „þetta var algerlega frábært samtal vegna þess að núna ...“ Hvernig viltu getað klárað þessa setningu? Samtalið á að vera í þínum höndum, þú átt að ákveða umræðuefnið!
Þegar þú kemur í markþjálfasamtal er mikilvægt að hafa það í huga að samtalið kemur til með að snúast um þig og það sem þú vilt að verði að þínum veruleika. Góður markþjálfi heldur þér við efnið og hjálpar þér að skoða möguleika og hvernig þú getur yfirstigið þær hindranir á veginum sem kunna að vera. Hann hjálpar þér að vinna með þá styrkleika sem þú hefur sem eru oftast mun fleiri en þú gerir þér grein fyrir í fyrstu. Hann hjálpar þér líka að vinna með hugskekkjur, þegar raunveruleiki þinn er mögulega annar en sá sem þú hefur talið þér trú um.
Í markþjálfasamtali er mikilvægt að báðir aðilar taki hlutverki sínu alvarlega. Þar er stiginn dans í takti trúnaðar þar sem markþeganum gefst rými til að leggja spilin á borðið og spá í framtíðina og hvernig hann getur spilað best úr því sem hann hefur. Þetta trúnaðarsamband er lykilforsenda fyrir því að viðskiptavinurinn nái árangri.
Bæði þú og markþjálfinn sammælist um að virða í hvívetna eftirfarandi leikreglur:
Sem markþjálfi heiti ég því:
-
að virða það traust og þann trúnað sem mér er sýndur
-
að hafa hagsmuni markþegans ávalt að leiðarljósi
-
að taka virkan þátt í markþjálfunarsamtalinu
-
að halda viðskiptavininum við efnið
-
að mæta á réttum tíma og vera vel undirbúinn
-
að fylgja viðskiptavininum eftir í þeim markmiðum sem hann setur sér
-
að endurgjöf mín sé heiðarleg og beinskeitt
-
að standa við það sem ég segi
Sem viðskiptavinur ætlar þú:
-
að virða það traust og þann trúnað sem þér er sýndur
-
að vera opinskár og heiðarlegur um þau mál sem tekin eru fyrir
-
að taka virkan þátt í markþjálfunarsamtalinu
-
að halda þér við efnið
-
að standa við það sem þú segir
-
að mæta á réttum tíma og vera vel undirbúinn
-
að fylgja eftir þeim markmiðum sem þú setur þér
-
að taka endurgjöf með opnum huga í þeim tilgangi að læra